Um okkur

Edith Ó. Gunnarsdóttir stofnaði Hugarsetrið árið 2012. Hún er með B. Sc. í sálfræði og er að klára M. Sc. í heilbrigðisvísindum með áherslu á starfsendurhæfingu. Hún er búin með yfir 800 klst jóganám með kennsluréttindi í jóga og jóga nidra djúpslökun. Hún er einnig með alþjóðleg réttindi í dáleiðslu og diplóma í jákvæðri sálfræði.

Edith hóf sitt innra ferðalag þegar hún lenti í andlegum og líkamlegum veikindum eftir áralanga streitu og álag, bataferlið var langt og oft erfitt en vel þess virði.  Hún fór að leita inn á við með ástundun á hugleiðslu, jóga, djúpslökun og ýmis annarra meðferðarúrræða til að byggja líf sitt upp að nýju. 

Með reglulegri ástundun hefur lífið tekið umbreytingum til hins betra. Með því að losna undan gömlum hugsunarmynstrum og gömlum ávana fékk hún tækifæri til að lifa í núinu, upplifa sátt, öðlast innri frið og hamingju en einnig kjark og trú til að upplifa drauma sína. Hún lítur á sig sem eilífðarnemanda og leitast við að dýpka þekkingu sína og reynslu á lífinu öllum stundum. Meistaraverkefin hennar í heilbrigðisvísindum var rannsókn um áhrif jóga sem meðferðaríhlutun við kvíða, streitu og þunglyndi. Síðastliðin ár hefur ástríða hennar tengst því að hjálpa öðrum að sjá ljósið og leiðina í átt að jafnvægi, vellíðan og innri frið. “ Ekki setja lykilinn að hamingjunni í vasann hjá öðrum, því lykillinn að hamingjunni býr innra með þér”.

Jóga snýst ekki um liðleika eða vera í góðu formi og komast í fullkomnar jógastöður, heldur ferðalagið á leiðinni í stöðuna. Það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli, heldur ferðalagið og hvað gerist hjá okkur á leiðinni. Með reglulegri ástundun lærum við að sleppa tökunum og samþykkja okkur eins og við erum og við förum að samþykkja aðra eins og þeir eru. Andlegur þroski gerist ekki í hugleiðslu eða á jógadýnunni heldur í lífinu sjálfu, hvernig við bregðumst við álagi og glímunni við lífsins verkefnum.

"Maðurinn er flókin vél og það er svo sannarlega eilífðarverkefni að reyna að minnka brestina sína og vökva dygðirnar og bara það góða í okkur sjálfum. Vera meðvituð gagnvart lífinu og allt í kringum okkur og trúa því statt og stöðugt að við séum yndisleg og fullkomin nákvæmlega eins og við erum". ~ Halldór Laxnes